Pourquoi Pas?

 

 

                        

 Ljósmynd af Dr Jean Charcot á yngri árum aldri tv t.h málverk

Frá fyrstu tíð hef ég verið hrifinn af"Sigga Stormi"fundist hann semmtilegur og fræðandi.Í kvöld var hann með frásögn af óveðrinu í sept.1936 þegar m.a. Franska rannsóknarskipið"Pourquoi Pas?fórst á skerinu Hnokka undan Mýrum.16 sept.En mér fannst eitt vanta í lýsingu Sigurðar.það er þáttur Kristjáns Þórólfssonar í björgun E.Conidec 3ja stýrimanns af skipinu.Morgunblaðið segir svo frá björgunni 18 sept:"Kristján Þórólfsson heimilismaður að Straumfirði sá kl 09 hvar landgöngustigi flaut skammt frá landi út af svonefndri Hölluvör.Þar eru klettar en mjó vík milli klettana.Maðurinn lá í sjónum undir stiganum að mestu,hélt með hægri hendi í stigann,en með þeiri vinstri undir hnakka sér.Þegar hann kenndi grunns sleppti hann takinu á stiganum og skolaði alda honum þá inn í þrönga víkina.Hljóp Kristján nú fram á klettinn og náði í hönd mannsins.En við það hrapar hann sjálfur í sjóinn.En þó tókst honum að komast í land og ná manninum með sér.Guðjón Sigurðsson bóndi í Straumfirði kemur nú þarna að og hjálpar Kristjáni að bera manninn uppúr flæðarmálinu

                  

 Dr Charcot á stjórnpalli skips síns tv t.h líkan af skipinu

""Í viðtali sem Matthías Johannessen ritstjóri og skáld átt við Kristján í júni 1961 segir hann m.a og ég gef Matthíasi orðið:"Ég gleymi aldrei þessu voðalega slysi", sagði Kristján Þórólfsson, þegar ég talaði við hann um Pourquoi Pas?-slysið í báti, sem flutti okkur upp á Mýrar í fyrradag. Kristján er uppeldissonur Guðjóns Siguðrssonar, bónda í Straumfirði, en það féll í þeirra hlut að bjarga eina manninum, sem af komst, þegar Pourquoi Pas? týndist, og safna saman líkunum sem rak eins og trjáboli á ströndina"Seinna í viðtalinu segir svo""Ég spurði um veðrið.

Kristján svaraði:

"Um morguninn var fárviðri af suðri, en snerist síðdegis í suðvestur."

"Hvernig leið þér þennan morgun?"

                                  

Landgangurinn frægi í fjörunni við Mýrar tv t. saðsetning hans á skipinu(myndin af líkani af skipinu)

 

"Mér leið ágætlega, nóttin draumlaus og ekkert að óttast. Þó vaknaði ég af einhverjum ástæðum rúmri klukkustund fyrr en ég var vanur og var kominn út á hlað upp úr sjö. einhver uggur kannski. Þar stóð ég við hlið Guðjóns fósturföður míns, sem skyggndist til veðurs. en við höfðum ekki staðið lengi þarna á hlaðinu, þegar upp rann ljós fyrir okkur: stórslys hafði orðið á sundinu og við sáum þrímastrað skip reka stjórnlaust í átt til lands. Fósturfaðir minn benti út á sjóinn og sagði: "Þarna hefur strandað skip." "Já," samsinnti ég, "og orðið slys." Síðan tókum við undir okkur stökk og hlupum við fót út að Höllubjargi, þaðan sem útsýni var betra, enda veitti ekki af eins og á stóð."

"Hvað er langt frá bænum Straumfirði út að strandstaðnum?"

"Þú sérð það á eftir, en út á klettaglufuna eða víkina, þar sem ég bjargaði Gonidec er líklega um kílómetra leið."

"Og er það langt frá strandstaðnum?"

 

 Líkin í brekkunni við Borgarlæk.Lík dr Charcot fremst

 "Skipið strandaði á svonefndum Hnokka, skeri sem liggur um það bil þrjár mílur frá bænum, gæti ég ímyndað mér. Þeir hafa líklega verið villtir og straumurinn út úr firðinum borið þá vestur á bóginn, en ég tel ekki að skipið hafi rekið fyrir vindi."

"Það hefur ekki séð út úr augum, þegar þið komuð á Höllubjörg?"

 Pourquoi Pas? í höfn í Le Harve

"Jú, við sáum sæmilega fram í skipið, og þarna lá það eins og hvert annað rekald og mátti grilla í það í móðunni. Annars hvarf það fljótt, því ekki liðu nema tveir tímar frá því við sáum það fyrst og þangað til það var sokkið. En möstrin stóðu upp úr fram á næsta dag, afturmastrið lafði held ég þrjá daga, en brotnaði þá í vestan roki.

Ég hef haft guðsorð heldur lítið á vörum það sem af er ævinnar, en þegar ég sá skipið, gerði ég mér strax grein fyrir þeim voðahörmungum, sem þarna höfðu átt sér stað og sagði eins og í leiðslu, eða líklega fremur í ofsahræðslu: "Guð hjálpi okkur."

Ég hef ekki þurft að taka þau orð aftur".

 

Eugene Gonidec í góðum höndum í Straumfirði t.h

Í þessu bili flaug fallegur mávur niður að bátnum okkar og stríddi öldunum með þöndum, öruggum vængjum. Það minnti mig á frásögn Árna Óla, sem ég hafði lesið kvöldið áður.

"En af dr. Charcot er það að segja, að er hann sá hvernig komið var, og skipstjóri hafði gefið hina síðustu fyrirskipun sína, gekk dr. Charcot af stjórnpalli og niður í káetu, til þess að leysa úr fangelsi vin sinn mávinn, er þeir skipverjar höfðu haft með sér frá Grænlandi, og getið var um hér í blaðinu í gær. Bjargaði hann mávinum upp á þiljur, svo hann gæti fleygur farið ferða sinna, þegar þeir skipverjar voru komnir í heljar greipar."

   Pourquoi Pas? á Suður Íshafinu

 

"Sáuð þið mávinn?"

"O-nei".

"En þið hafið séð skipið sökkva, Kristján?"

"Já, það má heita svo. Fyrst þegar við litum út um morguninn, held ég það hafi lamizt við skerið, en þegar við vorum komnir syðst í eyjuna, eða út á Höllubjarg, var það komið á þann stað fyrir innan Hnokka, þar sem það sökk síðar. Eftir öllum sólarmerkjum að dæma hafa þeir varpað akkerum strax og þeir sáu hver hætta var á ferðum, og það sagði okkur Gonidec að þeir hefðu haldið fyrst þegar þeir lentu á skerinu og sáu brotin allt í kringum skipið að ströndin væri skammt undan og óttuðust að þeir mundu lenda í hamrabeltum og brjóta skipið í spón. Af þeim sökum fundizt öruggara að halda aftur af því með akkerinu. Þegar við sáum skipið frá Höllubjargi, sneri stefni þess upp í vindinn, svo akkerið hefur staðið fast í botni, að öðrum kosti hefði það rekið flatt fyrir vindi upp á land og þá hefði kannski farið öðruvísi en raun varð á.

 

 

Gonidec og landgangurinn á 80 ára afmæli þess fyrrnefnda

Og þú hefur séð allt skipið, þaðan sem þú stóðst?" 

"Jú, það var alveg upp úr sjó og fyrst í stað mjakaðist það í átt til lands eða meðan akkerisfestin hrökk til, en þá stöðvaðist það og tók að sökkva. Áttu þeir þá ekki eftir nema svo sem tvær mílur í land og ég tel, að skipið hefði komizt þennan spöl, ef akkerið hefði losnað."

"Heldurðu ekki, að Frakkarnir hafi flestir farizt, þear skipið tók niðri á Hnokka?"

"Nei, eftir því sem Gonidec sagði okkur voru þá enn margir menn um borð og átta eða níu höfðu komizt á fleka en hann liðaðist sundur og þá tókst sex mönnum að skríða upp á landgöngubrúna og héldu sér þar. Hana rak til lands með þá félaga en þeir urðu aðframkomnir á leiðinni og týndust allir í hroðann nema einn. Sá síðasti hvarf þegar landgangurinn var skammt undan Höllubjargi. Þó er ég þess fullviss að Gonidec var einn eftir, þegar ég sá hann fyrst um 400 metrum suður af bjarginu. Þá hafði hann að mestu misst meðvitund, lá hálfur undir stiganum, hélt með hægri hendi í hann, en með þeirri vinstri undir hnakka sér.

 Minnisvarði um Dr Carcot við Scorebysund

Hann mundi lítið eftir sér fyrr en hann vaknaði í rúminu heima. En þó var hann með einhverri rænu, þegar hann kom á móts við Höllubjargið. Hann sleppti landganginum, þegar hann sá mig á klettanefinu og lét sig reka á björgunarbeltinu og öldunum inn í þrönga klettavík eða glufu, sem kölluð er Hölluvör og er í klettaklungrinu norðvestan í bjarginu. Það var eins og undirmeðvitund hans segði honum, að þarna væri von um björgun. Ef hann hefði rekið að landi eins og 10 metrum austar, hefði hann rotazt í klettunum.""Hér enda ég tilvitnunni í viðtal Matthíasar.

 

 Minnisvarði um Dr Jean Charcot í St Malo

Kristján Þórólfsson var aðeins 19 ára er hann vann þetta mikla þrekvirki sem sem lengi var í minnum haft en virðist nú flestum gleymt.Það má þakka Matthíasi fyrir að hafa varðveitt þetta samtal á heima síðu sinni og er það vel.Því að margar"hvurndagshetjur"fyrri ára eru þvi miður fallnar í gleymsku..Ég átti þess kost að kynnast Kristjáni persónulega.Hann var einn af hásetunum á Eldborginni þegar ég byrjaði þar.

 Kristján Þórólfsson

Krstján Þórólfsson var fæddur 27 sept 1917 og dó tæpum 2 mánuðum fyrir sextugsafmæli sitt 30 júlí 1977

Mig langar til að gefa Matthíasi orðið að lokum:"

En hvaða myndir eru auglýstar í kvikmyndahúsunum þennan viðburðaríka dag, fimmtudaginn 17. september? Í Nýja bíó: “Feigðarýlfrið”, en Gamla bíó auglýsir “Stolin paradís.” Þar höfum við fengið grafletur þessa dags. Í dagbókinni er skýrt frá því, að annað hefti af tímariti Jóhannesar Birkilands, Lífinu, sé nýkomið út með grein eftir Óskar B. Vilhjálmsson um kartöflur. Þá er þess einnig getið, að dregið hafi verið í happdrætti hjúkrunarkvenna og einhverjir hreppt málverk, krosssaumssessu, kaffidúk og tehettu. En happdrættið mikla undan Mýrum morguninn áður hafði verið örlagaríkara. Af 40 vöskum drengjum hafði aðeins einn dregið lífið.  

Kært kvödd.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ólafur Ragnarsson

Höfundur

Ólafur Ragnarsson
Ólafur Ragnarsson
Ýmsar hugleiðingar settar fram af manni, sem seint verður kallaður einhver spekingur,en leyfir sér að hafa skoðanir á ýmsum hlutum.Þ.e.a.s elliærum fyrrverandi sjómanni og áhugamanni um gott líf á Íslandi og þá sérstaklega í Eyjum,þar sem hann býr og lifir vonandi í sátt og samlyndi við alla. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...age_1269290
  • Miss Marple First Image
  • 001

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 535992

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband