Á vetravertíð fyrir 49 árum.

 

Svona gamlir kallar eins og ég ættu ekki að liggja mikið í að vera að rífast út í allt og alla og vera alltaf með eitthvað fjandans röfl um allt sem honum finnst fara afvega í þjóðfélaginu.Þetta getur orðið til að menn lifa bara á neikvæðum nótum.Vera þar af leiðandi alltaf í fýlu.Mér leiðist faktíst að vera í fýlu.Og fýlipokar fara í taugarnar á mér.Svo að ég ætla nú ekki að vera að agnúast út í neitt allavega ekki í byrjun.Hvort ég espa mig upp í lokin veit ég ekki enn

 

.En mig langar til að segja ykkur frá fyrstu vertíð í Vestmannaeyjum.Árið er 1959.Ég var netamaður(gilsari flest störf á dekki síðitogaranna höfðu nöfn og var gilsarastarfið eitt af æðri störfunum)á b/v Austfirðing SU 3.Skipstjóri var hinn ágæti skipstjóri Guðmundur Guðlaugsson frá Vestmannaeyjum(ávallt kallaður Gvendur Eyja).Sem í mínum huga er sá alklárasti togaramaður hvað verklægni snertir sem ég hef siglt með.Við höfðum selt aflann í Bremenhaven þ 20 jan.Seldum 118 ts fyrir 110,300 DM.Komum svo við í Færeyjum til að ná í sjómenn þaðan til starfa á skipum útgerðarinnar sem einnig gerði út togarann Vött SU 103

 

Stutt stans var haft á Eskifirði sem var heimahöfn.skipsins Var svo ferðinni heitið til Reykjavíkur með viðkomu í Vestmannaeyjum.En frændi Guðmundar skipstjóra Ólafur Sveinbjörnsson(Ávallt kallaður"Óli múrari".Vel þekktur Eyjamaður sem látinn er  langt um aldur fram fyrir nokkrum árum) var með okkur og hafði hann gert samkomulag við Guðmund frænda sinn um að honum(Óla)yrði skutlað í land í Eyjum.Svo vorum við 2 eða 3 aðrir sem ætluðum á"vertíð"og fórum um borð í Léttir hinn fræga hafnsögubát á "Víkinni".

 

Mikið var maður nú vígalegur og til í allt.Í hvítum lokubuxum og svartri Viktoríupeysu með"sixpensarann"á hausnum.Sem sagt búinn algerum einkennisbúningi togarasjómanna þess tíma.Og sem"gilsari"var maður ekki alveg búinn að þvo af sér smursvertuna sem fylgdi starfinu.Það er ekki meining mín að gera lítið úr einum eða neinum í þessu minnigarbroti mínu og mun ég þess vegna breyta nöfnum á sumum mönnum sem við sögu koma.Svo að ekki sé neinni rýrð kastað á minningu eins eða neins.Fyrsti maður sem ég hitti eftir að hafa "tjékkað"inn hjá Inga hótelstjóra á hóteli H.Ben. var kunningi minn nú til margra ára Svenni Dalla.

 

Svenni var í þeim hóp semog Guðmundur skipstjóri og fl sem ég leit ofboðslega upp til sem togaramanna.En Svenni hafði verið með okkur 1 eða 2 túra um sumarið.En var nú kominn á vertíð á Víði Su 175.Þarna var ég sem sagt komin í land í Eyjum.Vopnaður 2 eða 3 kössum af Lövenbrau bjór 4-5 flöskum af"gaddavír"(Vodka 75% )og einhverju pökkum af Camel.Það er enginn ber sem hafði Svenna Dalla að baki.Maður gat rifið kjaft við alla ef svo bar undir,Svenni sá um restina.Nú svo kom að því Lövenbrauin og gaddavírinn komst í þrot.

 

Og hvítbuxninn í svörtu peysunni þurfti að fara líta eftir einhverju öðru en að spóka sig í trollaragallanum innan um saklausar vertíðarstúlkur.Óli Sveinbjörns reyndist vinur í raun og kom mér í pláss á einum af alminnstu bátunum á vertíðinni.Þetta var svona tæplega 700 tonna fall hvað skipsstærð varðaði fyrir hinn hvítbuxnaklædda gilsara.Skipstjórinn var ættaður frá Verstmannaeyjum.En hafði lítið nálægt línu eða netaveiðum komið.Eigandi bátsins var einn af stæstu útgerðarmönnum Eyjanna.Ég var strax munstraður og komst strax á"tryggingu".

 

Og nú tóku við dagar"víns og rósa".Maður fékk alltaf útborgað trygginguna vikulega að mig minnir.Þá varð maður nú heldur betur maður með mönnum.Búin að kynnast einni af sætustu stelpunni á böllunum.Alltaf með aura um helgar og lífið blasti við hinum fv gilsara sem nú titlaði sig sem stýrimann.Þó engin prófin hefði hann og báturinn það lítill að engan stýrimann þurfti.En þetta fór vel í þá sem ekki vissu betur:Þegar ég "munstraði"á bátinn var hann uppí slipp.Þegar slippvinnunni var lokið neitaði slippeigandinn að hleypa honum niður fyrr en útgerðarmaðurinn gerði upp sínar skuldir við hann.Í þessu "þrasi"stóð svo í um það bil mánuð.

 

En maður var alltaf á vegum Bakkusar um helgar,búinn að koma sé upp "kröfukerfi"En í því kerfi botna sennilega fáir sem ekki upplifðu það í Vestmannaeyjum og á öðrum stöðum sem ÁTVR hafði ekki útsölu.En svo kom að alvörunni í málinu.Útgerðarmaðurin gat borgað skuldir sínar og alvaran tók við,Fyrst var haldið til línuveiða.Við vorum 4 á sjónum .Við getum kallað skipstjórann Björn,1sta vélstjóra Magga 2nnan vélstjóra Gunnar og ég.Lítið var nú að hafa og ef línan slitnaði fannst ekki mikið af henni aftur.En nokkra róða fórum við á línu en  svo var skift yfir á net.Steinaðar voru niður 3 trossur.

 

Og nú var áhöfnin fullskipuð.Björn skipstjóri Maggi 1sti vélstj.Gunni 2nnar vélstjóri og hásetarnir Óli "Borgarn.."Siggi"Smokkur"og Addi"Andskoti"Þetta held ég að hafi verið sú skrautlegasta áhöfn hvað viðurnefni varða sem ég hef siglt með.Í þessari upptalningu breiti ég öllum nöfnum nema mínu en viðurnefnin eru látin halda sér.Netin voru svo lögð en aldrei dregin af okkur.Við fundum aldrei neina af baujunum.Magnús Grímsson( sem ég held að sé ávallt kallaður Mangi á Felli)var skipstjóri á Andvara VE 101 þessa vertíð hann fann svo seinna 1 trossuna alla í flækju og"snörlaði"hana inn og fengum við að greiða hana á Nautshamrinum.Svokallaðir"útfarar"höfðu verið setti á öfugan enda.

 

Jæja nú var haldið á handfæri skipshöfnin eiginlega hin sama nema nú höfðum við fengið danskan"förste mester"Hann hafði verið vélstjóri á dönsku flutningaskipi sem hafði komið til eyjanna með salt en hafði legið í þar einhvern tíma vegna bilunar.En vélstjóranum hafði litist svo vel á sig í Eyjunni að hann kom fljótlega til baka.Og ég veit ekki annað en að hann hafi sest að um nokkuð langan tíma í Eyjum.Þegar þetta var var Ási í Bæ á Hersteini(en Hersteinn var svipaður að stærð og sá bátur sem ég var á)aðalaflamaðurinn á færunum.Nú tók Björn skipstjóri upp á því að elta Ása út um allan sjó.Hersteinn var búinn 60 ha Tuxham vél en í bátnum sem ég var á var 150 ha GM vél.Báturinn var því miklu gang meiri en Hersteinn.

 

Björn skipstjóri hafði þann háttinn á að koma keyrandi að Hersteini alveg á fullri ferð og bakka svo á fullu er komið var að honum.Ekki líkaði hinni öldnu einfættu sjóhetju og skáldi Ása í Bæ þessi vinnubrögð og kom hann einu sinni ábúðarfullur um borð til okkar í landi eftir mikinn"svingdag"og hellti sig yfir Björn.Sagði að maður ætti helst að sigla löturhægt um sjávarins öldur og hafa helst ekki augun af dýptarmælinum og ef hann sýndi lóðningar ætti maður helst að vera á flókaskóm er maður væri búinn að stoppa fleyið og læðast um dekkið að færunum.Eftir það laumuðumst við eftir sjónum í leit að lóðningum.En lítill var árangurinn.Þetta endaði svo með því að"Gemsinn"sagði stopp og neitaði að taka þátt í svona laumuspili.Mér skildis seinna að það hefði jafnvel verið höfuðorsök vélarbilunarinnar hve hægt við fórum með ströndum.

 

En ég var svo spurður hvort ég gæti tekið að mér kokksstarf á einum af Austfjarðarbátunum sem réru þessa vertíð frá Eyjum.Þessu játti ég og endaði"gilsarinn"ungi sem kokkur og segir ekkert af þeirri eldamennsku en skal skýrt tekið fram að enginn dó af matareitrun.Og eins og segir í vísunni:"allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó"Ég vil að lokum endurtaka það,að það er á engan hátt ætlun mín að gera lítið úr neinum eða neinum.Mér ferst það ekki og alls ekki frá þessum tíma og seinna þar sem ég varð mér sjálfur til skammar vegna mikils samneitis við Bakkus.En ég get nú ekki annað en brosað að þessum bernskubrekum sjómennsku minnar.Og vona að einhver sé sama sinnis.Þeim sem hingað hafa haft nennu til að lesa kveð ég kært að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Örn Einarsson

Skemmtileg lesning, virkilega gaman að lesa þetta.

Bakkus gamli alltaf samur við sig

Einar Örn Einarsson, 20.1.2008 kl. 01:55

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Virkilega skemmtileg og fróðleg lesning.

Jóhann Elíasson, 20.1.2008 kl. 16:16

3 Smámynd: Sævar Helgason

Skemmtilegur lestur - ekki skemmir að vera samtímamaður þessa menningarheims sem söguefnið sækir næringu sína til.

Takk fyrir skemmtunina 

Sævar Helgason, 20.1.2008 kl. 19:14

4 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Ólafur.

Þarna hefur verið líf og fjör. Man líka sögu þegar menn voru að hneykslast á drykkju sjómanna. Sem voru að gera sig glaðan dag. Þeir sem drekka hafa góðar endurminningar. Enn þeir sem drukku ekki höfðu ekki neinar minningar.

Þegar þú minntist á þessar Viktoríu peysur þá fór að rifjast margt upp fyrir mér, þegar ég var að sigla til Grimsby þar þurfti maður að panta þessar peysur og var mjög stoltur að vera í þeim fyrir utan Grimsby var með þeim bestu borgum sem ég kom til á þessum tíma. þar vantaði ekki frábærar mótökur sem ég fékk sem ungur maður. þetta eru minningar sem ég gleymi ekki. 

Ólafur Ragnarsson frábær saga hjá þér.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 20.1.2008 kl. 21:51

5 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Glæsilegt Óli, trúi vel að þú glottir við að rifja þetta upp. Ég var með stýrimanni og seinna eina vertíð sem skipstjóra á Stokkseyri, Arelíusi heitnum Óskarssyni að austan og mig minnir hann hafa verið á Austfirðingi SU, þið hafið kannski verið samskipa þar?

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 20.1.2008 kl. 21:55

6 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Takk fyrir þessa góðu og skemmtilegu sögu , þetta fer nú að verða nog efni í góða bók Óli minn fyrir næstu Jól.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 20.1.2008 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ólafur Ragnarsson

Höfundur

Ólafur Ragnarsson
Ólafur Ragnarsson
Ýmsar hugleiðingar settar fram af manni, sem seint verður kallaður einhver spekingur,en leyfir sér að hafa skoðanir á ýmsum hlutum.Þ.e.a.s elliærum fyrrverandi sjómanni og áhugamanni um gott líf á Íslandi og þá sérstaklega í Eyjum,þar sem hann býr og lifir vonandi í sátt og samlyndi við alla. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...age_1269290
  • Miss Marple First Image
  • 001

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband